Nature, eitt virtasta tímarit heims, birti í vikunni grein eftir Sigríði Rut Franzdóttur, vísindamann við læknadeild Háskóla Íslands. Í greininni er fjallað um rannsóknir hennar á taugaþroskun.
Rannsóknir Sigríðar Rutar beindust að taugakerfi ávaxtaflugunnar en slíkar rannsóknir hafa í gegnum tíðina varpað ljósi á grundvallarferla í öðrum lífverum, þar á meðal hjá mönnum. Þekking á þeim ferlum sem stýra þroskun og sérhæfingu taugastoðfruma er takmörkuð og því geta niðurstöður Sigríðar Rutar og annarra á svipuðum sviðum varpað ljósi á ýmsa sjúkdóma í taugakerfi, sérstaklega þá sem leggjast á taugaslíður eins og mænusigg (Multiple sclerosis, MS).
Í þeim hluta rannsóknarinnar sem nú er birtur í vefútgáfu Nature var hlutverk svokallaðra FGF vaxtarþátta (Fibroblast Growth Factors) í þroskun taugastoðfruma ávaxtaflugunnar kannað.
Greinin sem Sigríður Rut vann að ásamt samstarfsfólki sínu við taugalíffræðistofnun háskólans í Münster, byggir á doktorsverkefni hennar sem unnið var undir leiðsögn Dr. Christian Klämbt. Meðal annars er sýnt fram á í greininni að tvær mismunandi FGF sameindir stýra þroskun frumanna í gegnum einn og sama viðtakann. Önnur þeirra stýrir frumufjölda og beinir stoðfrumunum á réttan stað en hin er tjáð í taugafrumunum og örvar stoðfrumurnar til að mynda einangrandi slíður um taugar.
Sigríður Rut lauk B.Sc. gráðu í líffræði frá HÍ vorið 2000 og M.Sc. gráðu í heilbrigðisvísindum frá sama skóla árið 2004. Hún lauk doktorsnámi við háskólann í Münster haustið 2008 og starfar nú sem nýdoktor á Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum við Lífvísindasetur læknagarðs þar sem hún rannsakar stofnfrumur lungna í tengslum við þroskun og lungnakrabbamein.
Grein Sigríðar Rutar má nálgast á vef Nature tímaritsins:
http://www.nature.com/nature/journal/vaop/ncurrent/full/nature08167.html