Milljónir fylgdust með sólmyrkva

mbl.is

Milljónir manna í Asíu fylgdust með lengsta sólmyrkva aldarinnar í nótt. Stór svæði á Indlandi og í Kína voru í algeru myrkri. Sólmyrkvinn átti sér stað klukkan 00:53 að íslenskum tíma.

Stjörnuáhugamenn og vísindamenn ferðuðust víða að til þess að fylgjast með myrkvanum sem stóð yfir í sex mínútur og 39 sekúndur þegar dimmast var. Hann sást fyrst í Austur-Indlandi. Síðan fór hann yfir Indland, Nepal, Búrma, Bangladesh, Bhutan, Kína, Japan og Kyrrahafið. Síðast sást hann frá eyju í Kyrrahafi, Nikumaroro eyju, klukkan 4:18.

Sólmyrkvinn sást að hluta í öðrum löndum Asíu.

Á Indlandi söfnuðust milljónir saman til þess að horfa á myrkvann. Skýjað var á sumum stöðum, líka yfir indverska þorpinu Taregna, sem var í miðju myrkvans. Margir fóru því vonsviknir heim aftur.

Eitthvað var um að fólk keypti sér far með flugi sem farið var sérstaklega í þeim tilgangi að fylgjast með myrkvanum.

Ekki tóku allir sólmyrkvanum fagnandi. Í Nepal voru allir skólar lokaðir til þess að vernda nemendur gegn slæmum áhrifum hans. Sumir foreldrar í Delhi höfðu börn sín heima þar sem sumir Hindúar trúa því að það sé slæmt að útbúa mat meðan að á sólmyrkva stendur og ófrískum konum var ráðlagt að halda sig heima þar sem fóstrið gæti orðið fyrir skaða.

Í Peking sást sólmyrkvinn illa vegna mengunar.

Síðast varð alger sólmyrkvi í ágúst 2008, hann stóð yfir í 2 minútur og 27 sekúndur. Sá næsti verður þann 11. júlí 2010 og mun einungis sjást frá fáum stöðum, á suðurhluta Jarðar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert