Neanderdalsmaður féll fyrir kastvopni

Ný greining á 50.000 til 75.000 ára gömlum minjum þykir benda til þess að nútímamaður hafi kastað spjóti í Neanderdalsmann, sem nefndur hefur verið Shanidar 3, í Írak og orðið honum þannig að bana. Vísbendingin þykir veik en þó styðja þá kenningu að nútímamaðurinn hafi átt þátt í útrýmingu Neanderdalmanna. Þetta kemur fram á fréttavef Live Science.

Shanidar 3 var karl á aldrinum 40 til 50 ára er hann lést. Líkamsleifar hans bera merki liðabólgu auk þess sem djúpur skurður eftir beitt áhald er á níunda vinstra rifi hans.

„Það sem við höfum  til að byggja á eru rifjameiðsli og það eru nokkrar tilgátur sem gætu útskýrt þau,” segir Steven Churchill, aðstoðarprófessor í þróunarmannfræði við Duke-háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.

„Við erum ekki að halda því fram að það hafi verið gerð skipulögð árás þar sem nútímamenn þustu yfir völlinn og tóku Neanderdalsmennina af lífi. Ég vil að það komi skýrt frá. Við teljum bestu skýringuna á sárinu þó vera þá að hann hafi orðið fyrir kastvopni og þegar litið er til þess hverjir höfðu slík vopn á þessum tíma og hverjir ekki, þá bendir þetta til þess að a.m.k. eitt atvik hafi átt sér stað þar sem átök blossuðu upp á milli tegunda."

Önnur beinagrind Neanderdalsmanns, sem fannst í Frakklandi og talin er vera 36.000 ára gömul, ber einnig áverka á höfði sem taldir eru vera eftir beitt áhald sem nútímamenn hafi útbúið. 

„Ef Shanidar 3 ber líka merki um átök á milli tegunda og hafi Shandiar 3 verið uppi á sama tima og nútímamaðurinn, þá erum við farin að sjá ákveðið myntur hér," segir Churchill og vísar þar til frönsku leifanna.

Engar vísbendingar hafa fundist um að Neanderdalsmenn hafi notað kastvopn. Churchill og samstarfsmenn hans gerðu því tilraunir á svínum til að kanna ummerki kastvopna. Segja þeir svín henta sérlega vel til slíkra tilrauna þar sem þau séu af svipaðri stærð og bein þeirra svipuð beinum Neanderdalsmanna.

Rannsókn þeirra á líkamsleifunum Shanidar 3 leiddi einnig í ljós að hann hafi sennilega lifað í nokkrar vikur eftir að hann hlaut sárið þar sem beinin voru farin að gróa er hann lést.

Neanderdalsmenn (Homo neanderthalensis) lifðu á sléttum Evrópu og hluta Asíu frá því fyrir allt að 230.000 árum og fram til fyrir rúmum 20.000 árum. þeir hurfu af sjónarsviðinu nokkur þúsund árum eftir að nútímamaðurinn kom fram á sjónarsviðið.

Óljóst er hvers vegna önnur tegundin lifði af en hin ekki en settar hafa verið fram margat tilgátur um það m.a. sú að nútímamaðurinn hafi útrýmt Neanderdalsmönnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert