Ný Taser-byssa kynnt

Taser-byssa.
Taser-byssa.

Taser International-fyrirtækið kynnti í dag nýtt handhægt vopn sem gerir kleift að veita þremur manneskjum raflost án þess að þurfa að hlaða á milli. 

Taser-byssur eru valdbeitingarvopn sem lögreglusveitir um víða veröld beita til að yfirbuga fólk. Byssurnar skjóta tveimur rafskautum sem eru tengdar við byssuna sjálfa og veita fólki tímabundið raflost.

Taser tilkynnti í dag að nýja X3 „raftæknilega stjórnunartækið“, þ.e. byssan, væri fyrsta nýja vopnið frá fyrirtækinu frá árinu 2003. Nýja tækið mun enn öruggara en fyrri útgáfur.

Framkvæmdastjóri Taser International, Rick Smith, sagði að tækið myndi „auka öryggi lögreglumanna þar sem þeir gætu nú skotið aftur ef fyrsta skot geigaði og jafnframt gert þrjár manneskjur óvígar í einu“.

Jafnframt mun nýja Taser-byssan vera búin nýrri tækni sem gerir það að verkum að rafmagninu væri heldur dreift á ytri lög húðarinnar en djúpt inn í líkamann.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt Taser-byssurnar þrátt fyrir yfirlýsingar framleiðandans þess efnis að þær væru hvorki banvænar né óöruggar.

Að sögn Amnesty International dóu 334 milli áranna 2001 til 2008 eftir að hafa verið skotnir með Taser-byssu.

Hér má sjá nýju græjuna í notkun. Þrír sjálfboðaliðar eru skotnir með Taser-skotum og standa svo upp ómeiddir nokkru síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka