3 kínversk orkuver losa meira en allt Bretland

Kínversk orkuver brenna aðallega kol.
Kínversk orkuver brenna aðallega kol. Reuters

Þrjú stærstu orkuverin í Kína losuðu meira af gróðurhúslofttegundum á síðasta ári heldur en allt Bretland, að því er fram kemur í nýrri skýrslu umhverfissamtakanna Greenpeace og breska blaðið The Guardian segir frá.

Samtökin vara við því í skýrslunni að óhagkvæm orkuver þar í landi og hversu háð það er kolum komi í veg fyrir áform um að ná tökum á loftlagsbreytingum. Enda þótt losun Kína á gróðurhúsalofttegundum á hvert mannsbarn  sé mun lægra en hjá þróuðum ríkjum, þá er landið nú sem heild komið fram úr Bandaríkjunum sem það land sem losar mest af gróðurhúsaloftegundum út í andrímsloftið.

Greenpeace segir að tíu stærstu orkufyrirtækin sem hafi lagt Kína til um 60% af rafmagnsþörfinni á síðasta ári, hafi brennt um 20% af kolavinnslu Kína - 590 milljónum tonna - og losað sem samsvarar 1,44 milljörðum tonna af koltvísýringi.

Kínversk orkufyrirtæki koma illa út í samanburði við önnur ríki hvað hagkvæmni snertir. Japan t.d. losar 418 grömmum af koltvísýringi á hverja kílówattstund og Bandaríkin sem samsvarar 625 grömmum. Tíu stærstu orkufyrirtæki Kína losa hins vegar 752 grömmum af koltvísýringi.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að Kína sé þjakað af miklu öfgum í veðurfari, svo sem þurrkum, hitabylgjum, hvirfilvindum og flóðum, sem eingöngu eigi eftir að aukast með loftlagsbreytingum. Orkufyrirtækin verði því að leggja sitt af mörkum til hjálpa Kína að vinna gegn veðurfarslegum hamförum með því að auka hagkvæmni í orkuframleiðslu á sem skemmstum tíma og stórauka hlut endurnýjanlegra orkugjafa svo sem vindorku og sólarorku.

Kína er hins vegar í kjöraðstöðu til að verða ofurveldi heimsins þegar kemur að snjallorku (e. smart energy) og endurnýjanlegri orku, segir í ennfremur í skýrslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert