Lítill munur á lífrænni og hefðbundinni matvöru

Með lífrænt í lúkunum
Með lífrænt í lúkunum Valdís Þórðardóttir

Lífrænt ræktuð matvæli hafa enga marktæka yfirburði fram yfirhefðbundna ræktun hvað varðar næringarinnihald eða heilbrigði, að því fram kemur í skýrslu sem kom út í Bretlandi í dag og fréttastofa breskra fjölmiðla, Press Association, greinir frá.

Um er að ræða sjálfstæða rannsókn undir eftirliti Food Standards Agency (FSA) í Bretlandi. Niðurstaðan fékkst eftir að rannsóknarteymi hjá London School of Hygiene & Tropical Medicine fór yfir öll gögn sem gefin hafa verið út í Bretlandi síðustu 50 árin sem snerta næringargildi og hollustumun milli þessara tveggja mismundandi framleiðslulaðferða.

Lífræn ræktun miðast við að vernda villt dýr og umhverfi, notar ekki tilbúinn áburð, lyfjagjöf er takmörkuð og búfénaði ætlað visst frjálsræði. Hún hefur átt vaxandi vinsældum að fagna undanfarin ár með því að matvörumarkaðir og verslanir bjóða upp á æ fleiri vörur af þessu tagi.

En skýrslan sem birt er í American Journal of Nutrition virðist bera brigður á að þessum framleiðslumáta fylgi einhver ávinningur fyrir hollustu almennings.

Aðalhöfundur skýrslunnar dr. Alan Dangour segir að örlítinn mun sé að finna milli lífrænnar ræktunar og hefðbundinnar á uppskeru og búfénaðir en „afar ólíklegt er að hann hafi einhverja þýðingu fyrir lýðheilsu. Rannsókn okkar gefur til kynna að á þessari stundu liggi engar sannanir sem styðja val á lífrænni fremur en hefðbundinni fæðu á grundvelli yfirburða í næringargildi.“

FSA segist styðja að neytendur eigi val og stofnunin sé hvorki með eða á móti lífrænni ræktun, og viðurkenni að fjöldi ástæðna geti verið fyrir því að fólk kjósi fremur slíka matvöru.

Gill Fine forstöðumaður hjá FSA segir að meginmáli skipti fyrir almenning að hafa réttar upplýsingar „til geta tekið upplýsta ákvörðun um val á fæðunni sem við borðum.“

„Þessi rannsókn rannsókn þýðir ekki að fólk eigi ekki að neyta lífrænt ræktaðra matvæla,“ bætir hún við. „Hún sýnir það eitt að það er

lítill, ef nokkur, munur á næringargildi milli lífrænnar og hefðbundinnar framleiðslu matvæla og það eru engar sannanir fyrir auknum ávinningi af því að neyta lífrænt ræktaðrar fæðu hvað hollustuna áhrærir.“

Talsmenn lífrænnar ræktunnar hafa gagnrýnt niðurstöður rannsóknarinnar og sagt hana ganga alltof skammt. Horft sé framhjá fjölda skýrslna sem sýni muninn vegna þröngra rannsóknarskilyrða nefndarinnar, og ekki hafi verið horft til rannsókna innan Evrópusambandsins í þessu efni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert