Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, óskaði í dag eftir að Geislavarnir ríkisins leggi fram tillögu til ráðuneytisins um hvernig brugðist skuli við niðurstöðum vísindarannsókna sem leitt hafa í ljós að ljósabekkir valda húðkrabbameini.
Fram til þessa hefur verið talið að sterkar líkur séu á þessu en nú segjast vísindamenn á vegum alþjóðlegu krabbameinsmiðstöðvarinnar IARC hafa sannað að svo sé, líkt og greint var frá á mbl.is í morgun.
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, segir á vef ráðuneytisins að þessar niðurstöður vísindamannanna beri að taka alvarlega. Þess má geta að reglur um ljósabekki á Íslandi eru sambærilegar við það sem tíðkast á Norðurlöndum en þar hefur verið rætt um að takamarka aðgengi yngsta aldurshópsins að ljósabekkjum á opinberum stöðum, en ungt fólk er talið í mestri hættu að fá húðkrabbamein vegna ljósanotkunar.
Heilbrigðisráherra segir að niðurstöður vísindamanna eigi að verða okkur öllum til viðvörunar og að hann beini því til allra þeirra sem reka ljósastofur að gera fólki grein fyrir þeim hættum sem ljósanotkun fylgir.
Krabbameinsrannsóknastöðin IARC eru hluti af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og það voru vísindamenn frá níu löndum, sem birtu niðurstöður rannsókna sinna í nýjast hefti læknatímaritsins Lancet Oncology.
Megin niðurstaða vísindamannanna er að hættan á því að fá húðkrabbamein eykst um 75% ef notkun ljósabekkja hefst fyrir 30 ára aldur. Aðrar þjóðir hafa þegar sett fordæmi um 18 ára aldursmörk í ljósabekki. Í Frakklandi hefur slíkt bann t.d. verið við lýði síðan 1998 og gefið góða raun. Þá hafa nokkur fylki Ástralíu innleitt slíkt bann auk þess sem lög þess efnis voru samþykkt í Skotlandi á þessu ári og taka gildi með haustinu.