Verðum hamingjusamari með aldrinum

Ungur nemur, gamall temur. Myndin er sviðsett og tengist ekki …
Ungur nemur, gamall temur. Myndin er sviðsett og tengist ekki efni greinarinnar beint. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fólk verður hamingjusamara með aldrinum. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem Dr. Laura Carstensen, sálfræðiprófessor hjá Stanford-háskólanum, hefur gert og greint er frá á vef breska ríkisútvarpsins. 

Rannsókn hennar leiðir í ljós að þrátt fyrir heilsufarsáhyggjur, áhyggjur úr af lægri tekjum og breyttri stöðu í samfélaginu þá séu efri árin þau bestu. Eldra fólk virðist meðvitað um að jarðnesk vist þeirra sé senn á enda og vilja nýta þann tíma sem gefst sem allra best. Flest eldra fólk hafi einnig lært að forðast kringumstæður sem tekur um of á taugarnar, stressar það eða gerir það sorgmætt. 

Carstensen leitaði til sjálfboðaliða á aldrinum 18 ára til tíræðs og bauð þeim að taka þátt í rannsókn sinni. Rannsóknin fólst bæði í ýmis konar tilraunum en einnig því að halda tilfinningadagbók. 

Hún komst að því að eldra fólk glímdi í miklu minna mæli við viðvarandi neikvæðar hugsanir en ungt fólk og átti auðveldara með að taka gagnrýni. Aldraðir áttu einnig auðveldara með að hafa stjórn á tilfinningum sínum, en sú færni virðist aukast með aldrinum. 

Að sögn Dr. Susan Turk Charles, sálfræðings hjá háskólanum í Kaliforníu, leiðir rannsóknin í ljós að eldra fólk er sér meðvitað um að ævi þeirra sé að styttast í annan endann. „Eldra fólk vill njóta þess tíma sem eftir er og forðast því kringumstæður sem gerir það óhamingjusamt. Þessi aldurshópur hefur líka haft meiri tíma til að læra og skilja ætlanir annarra sem hjálpar honum að forðast stressandi aðstæður. “

Að mati Carstensen ætti ungt fólk sem fyrst og undirbúa elliárin með því m.a. að hreyfa sig daglega og sinna áhugamálum sem ekki tengjast vinnunni eða fjölskyldunni.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert