Íslendingar geta vel við unað hvað varðar kostnað við að nota farsíma á Íslandi samanborið við flest önnur ríki innan OECD. Hins vegar er ódýrast að nota farsíma í ríkjum eins og Finnlandi, Hollandi og Svíþjóð. Dýrast er að hringja úr farsíma í Kanada, Spáni og Bandaríkjunum, samkvæmt skýrslu OECD.
Rannsókn OECD, sem birt var í dag, sýnir kostnað við farsímasímtöl í ágúst í fyrra. Útreikningarnir eru í Bandaríkjadölum en samkvæmt skýrslunni lækkaði verð á farsímanotkun þó nokkuð á milli áranna 2006 og 2008. Að meðaltali lækkaði kostnaðurinn hjá þeim sem nota farsíma lítið, þá er miðað við 360 mínútur í tali, 396 sms skilaboð og 8 mms skilaboð á ári, um 21%.
Meðalnotkun, þá er miðað við 780 mínútur í tali, 600 sms skilaboð og 8 mms skilaboð á ári, um 28%.
Stórnotendur, þá er miðað við 1.680 mínútur í tali, 660 sms skilaboð og 12 mms skilaboð á ári, um 32%.
Ef horft er á kostnað meðalnotenda má sjá að Hollendingar og Finnar greiða minnst eða 131.44 Bandaríkjadali, Íslendingar, sem eru í sjötta neðsta sæti hvað varðar kostnað, greiða 197.03 Bandaríkjadali á ári fyrir notkun á farsíma á síðasta ári.
Hins vegar greiða Bandaríkjamenn mest, 635.85 dali á ári í farsímakostnað sé miðað við meðalnotkun á slíku tæki.