Nær 100 kílómetrum á bensínlítranum

Ef marka má próf á sparneytni nýja tvinnbílsins Volt frá Chevrolet mun hann skjóta hefðbundnari bifreiðum ref fyrir rass. Verður Volt svokallaður innstungubíll, sem þýðir að rafgeymirinn er hlaðinn með því að stinga bílnum í samband til hleðslu. Hefðbundin bensínvél er einnig í bílnum til öryggis. Sé gert ráð fyrir því að bíllinn sé hlaðinn einu sinni á dag mun hann ná að keyra 97,4 kílómetra á einum bensínlítra í innanbæjarakstri. Hvað varðar raforkunotkun er gert ráð fyrir því að á hverja 100 kílómetra noti Volt 15,6 kílóvattstundir.

Orkuverð til almennings í Reykjavík er nú 9,49 krónur á kílóvattstund með söluskatti. Orkukostnaður verður samkvæmt því 148 krónur á hverja 100 kílómetra. Til samanburðar kostar bensínlítrinn nú um 190 krónur. Ef eknir eru 10.000 kílómetrar á ári innanbæjar nemur eldsneytiskostnaður hefðbundins bensínbíls 190.000 krónum á ári, en 15.000 krónum á rafbíl.

Söluverð skiptir máli

Sérfræðingar hafa reyndar dregið í efa fullyrðingar um að bíllinn fari 97 kílómetra á einum lítra af bensíni, en talsmenn Chevrolet segja að Volt verði að minnsta kosti mun sparneytnari en vinsælasti tvinnbíllinn um þessar mundir, Toyota Prius.

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um það hvenær Volt kemur á markað eða hvað hann muni kosta. Framleiðslukostnaðurinn á fyrstu eintökin er hins vegar metinn á fimm milljónir króna í Bandaríkjunum, en gert er ráð fyrir því að hann muni lækka þegar bíllinn fer í fjöldaframleiðslu.

Söluverðið mun reyndar ráða miklu um hvort raunverulegur sparnaður sé fyrir neytendur að kaupa slíkan bíl. Verði hann mun dýrari fyrir almenning en hefðbundinn bíll getur verið að sparnaðurinn vegna meiri sparneytni verði að engu.

Sé gert ráð fyrir því að framtíðin liggi í rafbílum vaknar einnig spurning um hvort breytingar verði á skattkerfinu. Nú er lagður skattur á hvern eldsneytislítra, sem nota á til viðhalds á vegakerfinu. Dragist eldsneytissala mikið saman er ljóst að þessar skatttekjur gera það sömuleiðis. Hvort sú leið verður farin að leggja veggjald á hverja kílóvattstund er óvíst enn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert