Bandaríska markaðsrannsóknafyrirtækið Pear Analytics segir, að um 40% allra færslna á samskiptavefnum Twitter séu „marklaust blaður." Álíka margar færslur voru samtöl fólk, sem notar Twitter til netspjalls. Aðeins um 8,7% færslna á vefnum höfðu eitthvað gildi og innihéldu markverðar upplýsingar eða fréttir.
Fram kemur á fréttavef BBC, að Pear Analytics fylgdist með Tweet-skilaboðafljótinu í hálftíma fresti daglega í hálfan mánuð á tímanum frá 11 til 17. Alls afritaði fyrirtækið um 2000 færslur og flokkaði þau í sex flokka: Fréttir, ruslpóst, auglýsingar, marklaus blaður, samræður og verðmætt innihald. Færslur voru flokkaðar sem samræður ef tveir notendur voru að skiptast á skeytum og undir „marklaust blaður" flokkinn féllu m.a. færslur á borð við: Ég er að borða samloku.
Starfsmenn Pear Analytics töldu fyrirfram, að flestar færslurnar myndu flokkast sem annað hvort ruslpóstur eða auglýsingar en vaxandi fjöldi fyrirtækja er nú farinn að nota Twitter til að koma á framfæri upplýsingum um vörur.
En þess í stað fóru 40,5% færslnanna í flokkinn marklaust blaður, 37,5% flokkuðust sem samræður og 8,7% töldust hafa upplýsingagildi. Ruslpóstur var 5,85% og auglýsingar 3,75%.
Pear Analytics ætlar að gera samskonar kannanir á ársfjórðungsfresti til að skoða þróun í notkun vefjarins.