Fellibylurinn Bill, hinn fyrsti sem fram kemur á Atlantshafssvæðinu í ár, veiktist lítillega í dag, fimmtudag, en heldur enn hættuflokkun sem 3ja stigs fellibylur á skalanum 1-5 og hafa veðurfræðingar viðhaldið stormviðvörun fyrir karabísku eyjarnar, Bermúda, austurströnd Bandaríkjanna og austanvert Kanada.
Fellibylurinn hafði áður náð hættuflokkuninni fjórum stigum sem er hreint mannskaðaveður, en vindhraðinn hefur lækkað í um 205 km. þar sem hann stefnir núna norðvestur um 1.270 km. suðaustur af Bermúda.
Veðurathugastöðvar í Bandaríkjunum spá því að Bill geti aftur náð hættustigi 4 seinna í dag eða á morgun, föstudag. Þörf verður á vöktun með Bill á Bermúda í dag, og fer að hafa áhrif á austurströnd Bandaríkjanna á morgun eða laugardag, og getur valdið þar miklu tjóni ef fellibylurinn tekur þar land.
Klukkan 9 í morgun var Bill staddur um 525 km. norðnorðaustur af Leeward-eyju með stefnu í norðvestur og vindhraðinn var þá um 30 km/klst.
Svokallaður 1-5 Saffir-Simpson-skali mælir styrkleika og hættustig fellibylja þar sem flokkunin 3 gefur til kynna hættulegan storm sem geti valdið umtalsverðu tjóni á þéttbýlum svæðum, en 4 stigs fellibylur er skilgreindur sem stórhættulegur stormur sem valdið geti gífurlegri eyðileggingu.
Fellibyljatíminn á Atlantshafi hefst 1. júní og lýkur 30. nóvember ár hvert. Veðurfræðingar endurskoðuðu spár um fjölda fellibylja þetta tímabilið og fækkuðu þeim í fjóra, þar af væru tveir af þeim meiriháttar fellibyljir með vindhraða um 178 kílómetra á klukkustund.
Byrjun fellibyljatímabilsins nú á Atlantshafi er einhver hin kyrrlátasta í áratug og hafa veðurfræðingar sagt að þróun veðurfyrirbærisins El Nino og áhrif straumsins í Kyrrahafinu hafi orðið þess valdandi að þeir hafi endurskoða spár sínar og fækkað fellibyljunum á svæðinu.
Samkvæmt spá vefssíðunnar Stormpulse, um hugsanlega slóð Bill, mun hann taka stefnuna austur á bóginn um það leyti sem hann kemur að Halifax á Nova Scotia og verður undan syðsta odda Grænlands á þriðjudag nk. Þá verður væntanlega talsvert af honum dregið þótt hann kunni að hafa einhver áhrif hér um það leyti.