Betra að sinna einu en mörgu

Reuters

Þeir sem hlusta á iPod, horfa á myndbönd í tölvunni, senda sms með hægri og athuga tölvupóstinn með vinstri eru síður líklegir til að skila góðu verki en þeir sem einbeita sér að einu í einu. Þetta er niðurstaða vísindamanna við Stanford háskóla í Bandaríkjunum.

„Þeir sjúga í sig aukaatriðin,“ segir Clifford Nass, sem stjórnaði rannsókninni „allt truflar einbeitingu þeirra,“ bætir hann við. „Við leituðum ítrekað að því hvað þau gera betur en fundum það ekki,“ sagði einn vísindamaðurinn. Félagsvísindin hafa lengi haldið því fram að fólk geti ekki unnið úr fleiri en einni upplýsingaveitu í einu og var það staðfest í rannsókninni. 

Hundrað nemendur tóku þátt í tilrauninni og var þeim skipt eftir háttum í fjölverkavinnslufólk og þá sem sinna aðeins einu í einu. „Þau gátu ekki hætt að hugsa um það sem þau voru ekki að gera í það skiptið. Þau geta ekki haldið hlutum aðskildum í huganum,“ segir einn vísindamannanna um þá „fjölhæfu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert