Forsetinn geti lokað Netinu

mbl.is/Júlíus

Starfsmenn Jay Rockefeller öldungardeildarþingmanns frá Vestur-Virginíu hafa undirbúið frumvarp um að veita Bandaríkjaforseta heimild til að loka nettengingum tölvukerfa í einkaeigu og að útiloka þau þannig frá Internetinu. 

CNET News komust yfir 55 blaðsíðna drög að frumvarpinu sem starfsmenn þingmannsins hafa unnið að bakvið luktar dyr. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að forsetinn geti tekið tímabundið yfir stjórn á netkerfum í einkaeigu skapist neyðarástand á sviði netöryggis. 

Forsetinn gæti lýst yfir slíku neyðarástandi gagnvart tölvukerfum í einkaeigu og gripið til ráðstafana til að bægja meintri hættu frá. Í öðrum köflum frumvarpsdraganna er rætt um að koma á vottunarkerfi fyrir atvinnumenn á sviði netöryggis og að gerð verði krafa um að fólk með slíka vottun stýri netkerfum í einkaeigu.

Larry Clinton, forseti Internet Security Alliance, en í þeim samtökum eru stór fyrirtæki á sviði netöryggis, segir að þótt frumvarpsdrögin hafi batnað við endurskoðun þá valdi það nokkrum óróa hvað þau eru óljós. Ekki sé ljóst hvaða tök Rockefeller öldungardeildarþingmaður telji nauðsynlegt að hafa á einkageiranum. 

Andstæðingar frumvarpsdraganna segja að slík lög myndu skerða frelsið á Netinu. Bandaríkjamenn ættu frekar að afnema einkarétt sinn á tækni Netsins. Því hafi Obama Bandaríkjaforseti áður lofað. 

Þeir sem styðja frumvarpsdrögin segja að þau snúist um hliðstæðar aðgerðir og þegar George W. Bush greip til þess að loka loftrýminu eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert