Indverskur tunglhnöttur sambandslaus

Samband rofnaði í nótt við tunglfar Indverja.
Samband rofnaði í nótt við tunglfar Indverja. mbl.is/RAX

Samband rofnaði skyndilega í nótt við indverskt gervitungl, sem er á braut um tunglið. Gervihnettinum var skotið á loft í október og var gert ráð fyrir að hann safnaði upplýsingum í tvö ár.

Gervihnötturinn, Chandrayaan-1, þótti vera rós í hnappagat Indverja sem vilja styrkja stöðu sína í Asíu á sviði geimrannsókna. Markmiðið með geimskotinu frá Andra Pradesh var búa til þrívíddarlandakort af tunglinu og skrásetja landslagið.

En í júlí bilaði skynjari í hnettinum. Talsmaður indversku geimferðastofnunarinnar sagði þá að þegar hefði tekist að safna verðmætum upplýsingum þótt bilunin hefði haft áhrif á myndgæðin.

Áætlað var að þetta tunglverkefni myndi kosta jafnvirði 9,3 milljarða króna, umtalsvert minna en svipaðir hnettir sem Japanar og Kínverjar sendu til tunglsins í fyrra. En margir Indverjar hafa þó orðið til að gagnrýna geimferðaáætlun indverskra stjórnvalda og telja hana sóun á fjármunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert