Kaliforníudeild samtaka sem berjast fyrir borgaralegum réttindum, American Civil Liberties Union, standa nú fyrir herferð fyrir því að vekja fólk til vitundar um hversu opnar persónulegar upplýsingar eru á Fésbókinni og horfa samtökin þá einkum til allra þeirra smáleikja sem fólk notar gjarnan á vefnum, sér í lagi öllum spurningaleikjunum.
Milljónir Fésbókarnotenda nota leikina hvern einasta dag og eru spurningaleikirnir einstaklega vinsælir. Með því að taka þátt í svona leik eru notendur hins vegar að deila mun fleiri upplýsingum með hönnuðum leikjanna en þeir gera sér grein fyrir. Þetta er vegna þess að sjálfkrafastilling Fésbókarinnar leyfir miðlun upplýsinga af persónusíðunni, prófílnum, og skiptir þá engu hvort þú ert með stillinguna Prívat eða Opinber. Það sem verra er, jafnvel þótt þú takir aldrei þátt í svona leikjum sjálfur þá koma þínar upplýsingar í ljós þegar vinir af Fésbók taka þátt í þeim.
Til þess að sjá svart á hvítu hversu slæmt málið er hafa samtökin þróað lítinn spurningaleik fyrir notendur Fésbókarinnar. Með því að svara spurningnum færðu að sjá hvaða upplýsingar aðstandendur leiksins safna, bæði frá þér og vinum þínum. Þetta eru upplýsingar eins og hvaðan maður er, hvaða menntun maður hefur, hvaða áhugamál maður hefur, hverjar eftirlætisbækurnar eru, hvaða hópum maður tilheyrir o.s.frv.
Samtökin standa nú fyrir undirskrifarstöfnun þar sem aðstandendur Fésbókarinnar eru hvattir til þess að leyfa notendum að hafa meiri stjórn yfir persónuupplýsingum sínum.
Leikur samtakanna - hérna sérðu hvað aðrir sjá um þig og vini þína.