Norðurheimskautið hafði kólnað í 2.000 ár áður en það tók að hlýna skyndilega fyrir u.þ.b. hálfri öld, samkvæmt rannsókn sem vísindatímaritið Science birti í vikunni.
Vísindamenn frá Bandaríkjunum, Kanada, Íslandi, Noregi og Finnlandi önnuðust rannsóknina. „Niðurstaða okkar er að síðasta hálfa öld hafi verið sú hlýjasta í að minnsta kosti 2.000 ár,“ sagði Darrell Kaufman, sem stjórnaði rannsókninni.
Vísindamennirnir sögðu kólnunina stafa af því að jörðin hefði fjarlægst sólina og að þessi þróun hefði átt að halda áfram út öldina sem leið. Meðalsumarhitinn á norðurheimskautinu væri um 1,4 stigum hærri en hann hefði orðið ef kólnun hefði haldið áfram.
Niðurstöðurnar byggjast á rannsóknum á botnseti vatna, trjáhringum og ískjörnum.