Ruddalegt að vera hoppandi

AP

Google.com býður fólki að þýða texta úr einu tungumáli á annað. Slíkar þýðingar ber að taka með miklum fyrirvara. Það er augljóslega rétt, sem haft var eftir Þorbirni Broddasyni prófessor fyrr í vikunni, að seint kæmi gullaldartexti úr slíkum þýðingum.

Maður nokkur, sem sló inn setninguna „Ég er hoppandi kátur“ varð heldur en ekki undrandi þegar enska þýðingin reyndist vera „Holy shit, I am gay“ (Fjandinn sjálfur, ég er samkynhneigður).

Hann ákvað að prófa að þýða sömu setningu yfir á dönsku, en þar varð útkoman „Hold da kæft jeg er bösse“ svo Google-þýðingin var sjálfri sér samkvæm í vitleysunni og fullyrti, með blóti og formælingum, að maðurinn væri í raun og sann samkynhneigður.

Þegar þýðingunni var snúið upp á Google og rituð inn setningin „Fjandinn sjálfur, ég er samkynhneigður!“ þá svarar Google um hæl á ensku: „Follow me, I'm gay“ (Fylgið mér, ég er samkynhneigður). Ekkert hægt að hnika herra Google frá þeim hugleiðingunum.

Til að láta enn reyna á hoppið var slegin inn setningin: „Þetta er hoppandi kanína“ og þá kom þýðingin „This is holy shit rabbit.“ Orðið „hoppandi“ er því ekki fyrir viðkvæma og best að láta Google ekki komast í tæri við það.

Helvítis mánudagar

Næst lá beint við að setja inn þekktasta slagorð búsáhaldabyltingarinnar, „Helvítis fokking fokk!“, þótt vissulega sé þar um slangur að ræða og því kannski vafasamt að leggja slíka gildru fyrir þýðingarforritið. En Google hugsaði sig vart um sekúndubrot: „Monday, February fokk.“ Vissulega var ýmislegt sem fór í taugarnar á mótmælendum á mánudögum í febrúar sem og aðra daga, en það er önnur saga og óþarfi af Google að leggja slíkt mat á hlutina.

„Útrásarvíkingur með kúlulán“ var Google ofviða, eins og illa innrættur skríbent hafði raunar reiknað með. Þýðingin var með öllu óskiljanleg: „Film with Kúlulaksur.“ Er Google kannski að gefa í skyn að útrásarvíkingarnir hafi ekki verið raunverulegir? Þeir hafi bara verið sýndarveruleiki, eins og í bíómynd?

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert