Rannsókn vísindamanns við St Andrews-háskólann í Skotlandi hefur leitt í ljós að í svita er efnasamband sem getur aukið kynferðislegt aðdráttarafl karlsins á konur, segir í Independent. Séu menn mjög duglegir að þvo sér getur hreinlætið af þessum sökum dregið úr áhuga kvenna.
Efnasambandið, sem nefnist androstadienone, finnst bæði í svita karla og kvenna. Það á rætur að rekja til karlhormónsins testósteróns og hefur mælanleg áhrif á konur.
Vísindamaðurinn, Tamsin Saxton, gerði tilraun með því að setja lítinn dropa af efnasambandinu á efri vör alls 50 kvenna áður en þær fóru á stefnumót og var um að ræða marga karla á löngu tímabili. Til samanburðar voru aðrar konur sendar á stefnumót með mönnunum en þær fengu aðeins vatn eða olíu á efri vörina.
Konurnar gáfu körlunum einkunn á skalanum 1 til 7 eftir stefnumótin. Í ljós kom að konunum með androstadieone á vörinni fannst karlarnir ívið meira spennandi en hinum konunum. Mestur var munurinn hjá konum á aldrinum 18-22 ára.