Ný rannsókn í Bandaríkjunum hefur leitt í ljós að sturtuhausar geta verið stútfullir af hættulegum efnum sem valdið geta sjúkdómum og þar þrífst oft mikill bakteríugróður. Rannsakaðir voru 50 hausar frá níu borgum og tíðni sjúkdómsvaldandi örvera reyndist 100 sinnum hærri en almennt í neysluvatni.
Í um 30% af sturtuhausunum var umtalsvert magn af örverum sem tengjast hættulegum lungnasjúkdómi er nefnist mycobacterium avium, segir í AFP-skeyti.
Norman Pace, örverufræðingur við Colorado-háskóla, sem annaðist rannsóknina, sagði að vatn sem þeyttist niður úr sturtuhausnum myndaði oft afar litla dropa sem ættu greiðan aðgang að innstu kimum lungnanna. Þess vegna væri þessi örverumengun stórvarasöm.