Uppgötvaður hefur verið varnarbúnaður í bakteríum sem gerir þeim kleift að berjast gegn árásum sýklalyfja, að sögn BBC. Vonast menn til að niðurstaðan geti gert auðveldara að finna leiðir til að auka áhrif þeirra aðferða sem nú eru notaðar gegn bakteríum.
Þær stökkbreytast hratt og noti fólk mikið af lyfjunum getur það valdið því að þau hætti að virka á örverurnar, þær verði ónæmar. Hefur þetta ekki síst valdið áhyggjum vegna þess að almennt er lítil þróun í framleiðslu sýklalyfja og fá hafa bæst við á seinni árum. Þróun lyfjanna er afar dýr og miklar kröfur eru gerðar til öryggis þeirra.
Bandarískir vísindamenn við New York-háskóla skýrðu frá uppgötvun sinni í tímaritinu Science. Í ljós kom að köfnunarefnisoxíð sem bakterían framleiðir stöðvar virkni margra mikilvægra sýklalyfja. Ensím sem framleiða oxíðin verða afar virk í örverunum þegar sýklalyfjum er beitt. kjon@mbl.is