Kínversk stjórnvöld hafa sett stefnuna á að árið 2012 verði hlutfall seldra tvinnbíla og hreinna rafbíla af nýjum seldum bílum orðið 5%, sem að óbreyttu mun svara til á milli 300.000 og 500.000 nýrra ökutækja. Árið 2015 miðast áætlanir við að hlutfallið verði komið í 10% og verður sala á tvinnbílum og rafbílum þá að líkindum komin yfir eina milljón á ári.
Þetta segir Alex Zhu, forstöðumaður söludeildar risafyrirtækisins BYD í Evrópu, um horfurnar á innanlandsmarkaði í Kína næstu árin.
Af orðum hans má skilja að verksmiðjuþyrping BYD í Shenzhen muni gegna stóru hlutverki í rafvæðingu kínverska bílaflotans. Hjá fyrirtækinu starfa um 130.000 manns, þar af 12.000 verkfræðingar, og setja forystumenn þess stefnuna á að það verði orðið stærsta bílafyrirtæki í heimi árið 2025, þegar það á væntanlega að hafa farið fram úr sölu Toyota og General Motors.
Fyrirtækið hefur enda gífurlegt svigrúm heima fyrir. Áætlað er að í ár muni um 12 milljónir ökutækja seljast á Kínamarkaði, um 1,5 milljónum fleiri en í Bandaríkjunum. Það gera tæplega 33.000 ökutæki á dag en til samanburðar eru skráð ökutæki á Íslandi rétt rúmlega 300.000.