Rúmlega 6.400 dönsk stúlkubörn yngri en 14 ára nota p-pilluna. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken í dag. Að mati stjórnmálamanna ættu læknar að stuðla að því að minna sé skrifað upp á pilluna fyrir þennan aldursflokk, en læknar eru ekki á einu máli.
Árið 2008 notuðu stúlkur yngri en 15 ára tæplega 1,2 milljón dagskammta af getnaðarvarnarpillunni. Þetta er 3,4% aukning milli ára. Tölurnar fengust frá samtökum Apótekara í Danmörku.
Að sögn Else Guldager, skólahjúkrunarfræðings, hefur notkunin í þessum aldursflokki aukist jafnt og þétt síðustu árin.
„Það væri betra ef ungmennin notuðu smokkinn, en það er vitað að pillan er auðveld getnaðarvörn. Á þessum aldri er kynlífið fullt af nýjum tilfinningum og spennandi líkamlegum upplifunum og því getur verið erfitt að þurfa að tala um hvort og hvenær nota eigi smokkinn,,“ er haft eftir henni í dagblaðinu 24timer.
Hún ráðleggur foreldrum að ræða um kynlíf við börn sín. „Hvað er gott og freistandi og hverju beri að varast. Þumalputtareglan ætti að vera sú að börn eru alltaf tilbúnari til þess að lifa kynlífi fyrr en foreldrar þeirra reikna með. Því lengur sem foreldrar bíða með að tala um kynlíf við börn sín því erfiðara verður það.“
Preben Rudiengaard, læknir og formaður fyrir heilbrigðisnefnd danska þingsins, hefur miklar áhyggjur af þróun mála. „Með þessu móti er verið að grípa inn í eðlilegt hormónaflæði hjá ungum stúlkum. Slíkt ætti ekki að gera nema það sé algjörlega nauðsynlegt,“ segir hann og leggur áherslu á að pillan veiti enga vernd gegn kynsjúkdómum.
Undir þetta tekur Preben Rudiengaard sem þætti eðlilegra að strákarnir notuðu smokkinn í stað þess að stúlkurnar neyðist til þess að vernda sig með hormónagjöf. „Ég get aðeins hvatt til þess að læknar upplýsi ungar stúlkur um að það séu til aðrar leiðir til þess að verjast getnaði, en ungmennin vilja endilega byrja að lifa kynlífi svo ung.“
„Þegar við skrifum upp á pilluna liggja fyrir því tvær ástæður. Annað hvort vegna þess að stúlkurnar þurfa ella að glíma við mjög sársaukafullar blæðingar eða af því að þær eru byrjaðar að sofa hjá. Að okkar mati vöndum við okkur við mjög við það hverjum við gefum pilluna, en við verðum að meta ókosti pillunnar upp á móti kosti þess að koma í veg fyrir óæskilegar þunganir,“ segir Michael Dupont, formaður sambandi starfandi lækna.