Samgöngumáti framtíðarinnar?

Honda hefur svipt hulunni af nýju einhjóli sem gengur fyrir rafhlöðum, en talsmenn fyrirtækisins telja að tækið verði samgöngutæki framtíðarinnar innandyra.

Forstjóri Honda kynnti einhjólið, sem kallast U3-X, á blaðamannafundi í Tókýó í Japan. „Ég er sannfærður um að þetta nýja samgöngutæki, sem byggir á jafnvægistækni sem við þróuðum er við unnum að Asimo-vélmenninu, muni færa okkur skrefi nær því að smíða skemmtilegan samgöngumáta, sem mun bjóða upp á óendanleg tækifæri,“ segir Takanobu Itoh, forstjóri Honda.

Tækið er minna en Segway-hjólið, sem George W. Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti, féll svo eftirminnilega af fyrir nokkrum árum. Nú er Segway-hjólið notað innan- og utandyra víða um heim. 

Tækið sem Honda hefur kynnt er nægilega lítið til þess að fólk geti notað það heima hjá sér. Það sér um að halda jafnvægi sjálft og ökumaðurinn stjórnar tækinu með því að halla sér í þá átt sem viðkomandi vill fara. 

Það er tæp 10 kíló á þyngd og gengur fyrir rafhlöðu, og hver hleðsla endist í um klukkkutíma. Hámarkshraði þess er sex km á klst, sem er svipað því að ganga mjög rösklega.

Þá er hægt að setja hjólið saman og koma því fyrir í bifreiðaskotti. 

Hjólið sem Honda hefur nú kynnt til sögunnar er aðeins frumgerð. Að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins er ekki búið að taka neina ákvörðun um hvort það verði sett í fjöldaframleiðslu, enn sem komið er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka