Eftirlíking líkklæðis Krists sannar að það sé falsað

Tórínó líkklæðið.
Tórínó líkklæðið.

Ítalskur vísindamaður segist hafa búið til klæði líkt og hið þekkta líkklæði frá Tórínó (Turin) og geti því sannað að það sé ekki ekta. Lengi vel var haldið fram að um líkklæði Krists væri að ræða.

Í upprunalega klæðinu, sem er 4,37 m á lengd og 1,09 m á breidd, sést mannsmynd sem blóð og efnaleifar mynda. Virðist það vera af krossfestum manni. Vísindamenn í Bretlandi og Bandaríkunum komust að þeirri niðurstöðu fyrir rúmum tuttugu árum að klæðið sé frá tímabilinu 1260-1390 en ekki allir hafa tekið þá niðurstöðu trúanlega.

„Við höfum sýnt að það er mögulegt að búa til nokkuð sem hefur sömu einkenni og klæðið,“ segir vísindamaðurinn Luigi Garlaschelli sem er prófessor í lífrænni efnafræði. Hann ætlar að kynna niðurstöður rannsóknar sinni á ráðstefnu um hið yfirskilvitlega næstu helgi í norðurhluta Ítalíu.

Á líkklæðinu frá Tórínó má sjá fram- og bakhluta skeggjaðs manns með sítt hár og krosslagða handleggi. Svo virðist sem blóð sé í kringum sár á úlnliðunum, fótunum og síðu hans.

Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á fyrir tuttugu árum að klæðið væri frá 13.-14. öld hafa vísindamenn átt í erfiðleikum með að útskýra hvernig mannmyndin varðveittist á klæðinu.

Garlaschelli tókst að búa til eins klæði með því að nota efni og aðferðir sem voru þekkt á miðöldum. Lak var lagt yfir sjálfboðaliða og það síðan nuddað með litarefni með vott af sýru. Liturinn var svo látinn líta út fyrir að vera gamall með því að hita klæðið í ofni og hreinsa það. Blóðblettum, brunagötum og öðrum blettum var svo bætt við til að ná fram samskonar áferð.

Kaþólska kirkjan hefur aldrei haldið því fram að klæðið sé ekta en segir að það eigi að minna fólk á píslargöngu Krists. Svo mikið hefur verið deilt um klæðið að það er læst inn í dómkirkjunni í Tórínó og afar sjaldan sýnt almenningi. Það var síðast sýnt árið 2000 og er áætlað að það verði sýnt á ný á næsta ári. Á síðustu öld var það aðeins sýnt fjórum sinnum opinberlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert