Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir á ríbósómum

Þrír vísindamenn skipta á milli sín Nóbelsverðlaununum í efnafræði, sem veitt eru að þessu sinni fyrir rannsóknir á byggingu og hlutverki ríbósóma, örsmárra korna sem eru einskonar prótínverksmiðjur frumunnar. 

Verðlaunahafarnir eru Venkatraman Ramakrishnan, sem er breskur ríkisborgari en fæddur á Indlandi 1952, Bandaríkjamaðurinn Thomas A. Steitz, sem er fæddur 1940 og  Ada E. Yonath frá Ísrael, fædd 1939. 

Sænska verðlaunanefndin segir, að vísindamennirnir hljóti verðlaunin, 10 milljónir sænskra króna, fyrir rannsóknir á einum af grundvallarþáttum lífsins: hvernig ríbósómar breyta upplýsingum erfðaefnisins DNA í líf. Ríbósóm framleiði prótein sem stjórni efnafræði allra lifandi vera. Þar sem ríbósóm skipti sköpum fyrir lífið séu rannsóknir á þeim einnig mikilvægar í þróun nýrra sýklalyfja. 

Vísindamennirnir þrír hafa allir rannsakað byggingu ríbósóma og starfsemi þeirra. Allir hafa þeir beitt sömu tækni til að kortleggja stöðu atómanna sem mynda ríbósóma.  

Nóbelsverðlaunin í efnafræði hafa verið veitt nánast árlega frá árinu 1901 en hlé varð á verðlaunaveitingunum vegna heimsstyrjaldanna tveggja á síðustu öld. 

Thomas A. Steitz.
Thomas A. Steitz.
Ada E. Yonath.
Ada E. Yonath.
Venkatraman Ramakrishnan.
Venkatraman Ramakrishnan.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert