Bandaríska alríkislögreglan (FBI) og egypska lögreglan hafa ákært tæplega eitthundrað manns í dag en þeir eru grunaðir um aðild að stærsta tölvuglæp sögunnar í Bandaríkjunum, samkvæmt upplýsingum frá FBI.
Glæpurinn fólst í stuldi á tölvu auðkennum sem notuð eru til að komast inn í heimabanka. Er talið að fólkið hafa stolið fé frá þúsundum viðskiptavina bankanna.
Í fréttatilkynningu frá FBI kemur fram að yfir fimmtíu manns hafi verið ákærðir í Bandaríkjunum. Í Egyptalandi hafa 47 verið ákærðir fyrir aðild að málinu. Segir í tilkynningunni að aldrei hafi áður jafn margir verið handteknir í tengslum við tölvuglæp í Bandaríkjunum.
Í ákærunni kemur fram að mennirnir hafi sent tölvupósta á fórnarlömb sín þar sem óskuðu eftir upplýsingum um reikningsnúmer þeirra. Var pósturinn sendur af fölsuðum vefsvæðum. Er talið að glæpamennirnir hafi haft nokkrar milljónir Bandaríkjadala upp úr krafsinu.