Myndbandavefurinn YouTube nýtur gríðarlegra vinsælda og að sögn Chad Hurley, eins stofnenda YouTube, eru innlitinn komin yfir einn milljarð á dag. Þrjú ár eru liðin frá því Google keypti YouTube á 1,65 milljarða Bandaríkjadala.
Hurley segir að talsverðar breytingar hafi orðið á því efni sem er sett inn á YouTube. Meira beri nú á efni sem er unnið faglega.
„Við vildum búa til stað þar sem hver sem er, vopnaður upptökuvél, tölvu og með netaðgang, gæti deilt lífi sínu, list og málefni með heiminum og í mörgum tilvikum lifað á því,"segir Hurley.
Sífellt meira efni ratar á YouTube og í gær var til að mynda kvikmynd Martin Scorsese Taxi Drive mrð Robert De Niro og Jodie Foster í aðalhlutverki sett inn á vefinn.
YouTube skilar ekki hagnaði en að sögn yfirmanna Google styttist í að þeim áfanga verði náð.