Tvö ómönnuð geimför munu rekast á tunglið í beinni útsendingu bandarísku geimferðastofnunarinnar (NASA) í dag. Ráðgert er að fyrri áreksturinn eigi sér stað klukkan 11:31 að íslenskum tíma.
Þá mun 2,2 tonna hluti eldflaugar skella niður í nágrenni suðurpóls tunglsins á tvöföldum hraða byssukúlu. Áætlað er að við áreksturinn þyrlist upp 350 tonn af ryki í allt að 10 kílómetra hæð, eða jafnvel hærra.
Orkan sem leysist úr læðingi við áreksturinn mun jafngilda því að hálft annað tonn af dýnamíti springi. Hún mun duga til að mynda 20 metra breiðan og fjögurra metra djúpan gíg.
Fjórum mínútum seinna mun geimfar hlaðið mælitækjum svífa til jarðar á tunglinu og mæla á leiðinni niður innihald ryksins sem fyrra farið þyrlar upp.
Það er fyrst og fremst vatn sem vísindamenn eru að leita að á tunglinu með þessari tilraun. Greinist vatn í rykinu yrði það talin meiriháttar uppgötvun, að sögn vísindamanna. Ekki síst vegna hugmynda um tunglið sem miðstöð geimrannsókna í framtíðinni.
Vísindamenn hafa getið sér til að ís kunni að finnast á hinni myrku hlið tunglsins, sú sem ávalltsnýr frá jörðu. Þessar tilgátur hafa hingað til ekki fengist staðfestar.
Nánar má fræðast um áreksturinn og tilraunir sem hann snýst um á stjörnufræðivefnum.