Húsflugur hrella í grunnbúðum Everest

Tindur Everest
Tindur Everest Reuters

Fyrr á þessu ári truflaði einkennilegt suð sjerpann Dawa Steven Sherpa þar sem hann lá ásamt félögum sínum og hvíldi sig í grunnbúðum Everest. „Hvað í fjandanum er þetta?“ spurði þeir hvorn annan undrandi en fljótt kom sökudólgurinn í ljós. Stór, svört húsfluga hafði gert sig heimakomna í tjaldinu þeirra.

Fyrir örfáum árum síðan hefði þetta verið óhugsandi, þar sem ekkert skordýr gat lifað við þær aðstæður sem ríktu í grunnbúðum Everest í 5.360 metra hæð, en í dag er þetta ein margra breytinga sem eru til marks um loftslagsbreytingar. Að sögn Dawa hefur þetta nú gerst tvisvar á þessu ári. „Himalaya fjöllin eru að hlýna og breytast mjög hratt. Ég geng á fjöll, það er fjölskyldufyrirtæki, og það sem ég sé í vinnunni er að jöklarnir í Himaya eru að bráðna. Þetta er ekki tengt árstíðum lengur. Þetta gerist hratt og það er mjög sjáanlegt,“ hefur Guardian eftir Dawa.

Meðal þeirra breytinga sem Dawa verður vitni að í sínu nánasta umhverfi er að jökullin bráðnar nú í 5.500 metra hæð, en áður varð ekki bráðnun fyrr en komið var niður í 3.750 metra.  Jöklarnir bráðni nú um 10-20 metra á ári og allt að sjö mánuðir geta nú liðið án þess að rigni. 

Dawa segir einnig að tindurinn á sjálfu Everest sé að minnka. „Áður gátu 50 manns staðið á hryggnum upp að toppnum en nú komast í allra mesta lagi 18 manns þar fyrir.“ Dawa segir ekkert jafnast á við fegurðina sem blasi við af toppi Everest, en að rekast á húsflugu í grunnbúðunum finnst honum hryllilegt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert