Svíþjóð hvarf af vefnum

Stokkhólmur.
Stokkhólmur.

Þær sérstöku aðstæður komu upp á mánudagskvöld að sænskar heimasíður  hurfum um stund með öllu af netinu. Orsökin var mannleg mistök sem hefðu getað haft afdrifaríkar afleiðingar samkvæmt því sem fram kemur á vef danska blaðsins Berlingske Tidende. 

Svona lagað ætti ekki að geta gerst, en gerði það nú samt því það hreinlega slökknaði á sænskum vefsíðum. Þegar fyrirtækið sem sér um lénaskrá vefsíða með endinguna .SE (Stiftelsen för Internetinfrastruktur) setti reglubundna endurhlöðun á kerfinu af stað virðast rangar upplýsingar  hafa verið notaðar sem gerði það að verkum að allar vefsíðurnar hurfu. Sumar voru úti í aðeins 15 mínútur en aðrar síður birtust ekki aftur á vefnum fyrr en eftir töluverðan tíma. 

Mistökin fólust sögn Berlingske í því að einu „.se“ var ofaukið aftan við  allar slóðirnar í uppfærslunni. Þessi mistök þykja mjög óvenjuleg og hafði danskt systurfyrirtæki .SE samstundis samband við Svía og hvatti menn til að taka uppákomuna alvarlega.

„Hefði þetta vandamál verið langvarandi þá hefðum við getað vaknað upp á þriðjudagsmorgni með ekkert net í Svíþjóð. Nú þegar skaðinn er skeður getum við leitt hugann að því um hvernig öryggisnetið í kringum .se svæðið er. Getur einn tæknimaður lagt niður allt .SE lénasvæðið eða þarf fleiri til? Ef að glæpamenn hugsuðu sér að skaða Svíþjóð munu þær ná mestum árangri með því að ráðast að veikasta hlekknum. Er veikasti hlekkurinn .SE svæðið?“ Þannig hljómar bréf sem lénasérfræðingurinn Kristian Ørmen sendi .SE

Berlingske Tidende greinir einnig frá útskýringum Danny Aerts, framkvæmdastjóra .SE: „Þegar við komum kerfinu aftur í gang þá voru gerð mannleg mistök sem orsökuðu bilun í svæðinu. Við munum nú fara skref fyrir skref í gegnum verklagið hjá okkkur til að finna út hvernig þessi mistök gátu orðið. Ekkert þessu líkt hefur gerst í 10 ár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka