Breskir vísindamenn halda því fram að það sé raunhæfur möguleiki að tíræðir einstaklingar muni í framtíðinni líta út eins og fimmtugir.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að helmingur þeirra barna sem nú fæðast í Bretlandi muni ná að vera 100 ára sökum betri lífsgæða. Líkamar okkar verði hins vegar lúnir með árunum.
Vísindamenn við Háskólann í Leeds segjast ætla að verja 50 milljónum punda (um 10 milljörðum kr.) til að finna nýjar leiðir að því sem þeir kalla „50 virk ár eftir fimmtugt“.
Þeir hyggjast rækta líkamsvefi og bjóða ellilífeyrisþegum upp á slíkt, auk þess sem þeir ætla að bjóða upp á varanlegar ígræðslur.
Til að byrja með verður hægt að fá nýja mjöðm, hné og hjartalokur. Í framtíðinni sjá vísindamennirnir svo fyrir sér að hægt verði að skipta út ýmiskonar líkamshlutum sem bila.
Vísindamenn við háskólann hafa t.d. búið til gervimjöðm sem ætti að endast fyrir lífstíð, í stað 20 ára eins og er algengt í dag.