Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir að hægt sé að koma í veg fyrir milljónir ótímabærra dauðsfalla, og framlengja lífslíkur fólks í heiminum um fimm ár, með því að tækla fimm þætti sem hafa mikil áhrif á heilsu fólks.
Á hverju ári hljóta um 60 milljónir einstaklinga ótímabæran dauðdaga. Um fjórðung dauðsfallanna má rekja til þess að viðkomandi hafi fengið ónóga næringu sem barn, hann hafi stundað óvarið kynlíf, misnotað áfengi, hreinlæti hafi verið ábótavant og/eða viðkomandi hafi verið með of háan blóðþrýsting. Þetta kemur fram í skýrslu WHO.
Á meðan næringarskortur er mikið vandamál í fátækum ríkjum jarðar þá er ofeldi og offita vandamál hjá auðugum ríkjum. Fleiri látast í heiminum vegna offitutengdra sjúkdóma heldur en úr vannæringu.
Fram kemur í skýrslunni að heimurinn standi fram fyrir mörgum meiriháttar, útbreiddum heilsufarsógnum. Alls voru 24 meiriháttar heilsufarsógnir rannsakaðar. Þá segir að mikilvægt sé að yfirvöld viðurkenni vandann og meti umfang hans. Þannig sé hægt að taka á vandanum og bæta heilsu fólks án þess að þurfa kosta miklu til.