Sólarorkuver út um allt í Sahara

Það er enginn skortur á sólarljósi í Sahara-eyðimörkinni.
Það er enginn skortur á sólarljósi í Sahara-eyðimörkinni.

Risastórt sólarorkuverkefni er í burðarliðnum í Sahara-eyðimörkinni. Tólf evrópsk fyrirtæki hafa tekið sig saman um það verkefni, en það er hluti af stærri áætlun um framleiðslu endurnýjanlegrar orku fyrir Evrópumarkað.

Verkefninu, Desertec Industrial Initiative, er ætlað að sjá Evrópu fyrir 15% af orkuþörf sinni fyrri árið 2050. Á meðal fjárfesta í þessu 400 milljarða dollara ævintýri eru Deutsche bank, Siemens og orkufyrirtækið E.On.

Sú upphæð jafngildir um 50.000 milljörðum íslenskra króna. Minna má það ekki vera, enda er Sahara eyðimörkin meira en níu milljónir ferkílómetra að stærð.

Byrja á að framleiða orkuna eftir sex ár, árið 2015. Stefnt er að því að framleiða sólarorkuna með risavöxnu neti orkuvera og raflína um Norður-Afríku og Mið-Austurlönd. ,,Það er kominn tími til að gera þessa sýn að raunveruleika," segir forstjóri Desertec, Paul van Son. ,,Það þýðir að við þurfum nána samvinnu við fjölmarga aðila og menningarheima, til að skapa traustan grunn fyrir álitlegar fjárfestingar í endurnýjanlegri orku og flutningskerfum."

Fyrsta skrefið á að verða bygging gríðarstórra sólarorkuvera úti í eyðimörkinni, þar sem sólarljósi verður safnað saman með speglum, sem beina því á vatnstanka. Vatnið verður með því móti hitað upp og látið knýja gufutúrbínur sem munu framleiða rafmagn allan ársins hring.

Verkefnið hefur fengið stuðning ríkisstjórnar Þýskalands, sem vill mjög gjarnan verða síður háð Rússlandi um orku en það er nú. Allnokkur Afríkuríki hafa einnig lýst yfir sterkum vilja til þess ða taka þátt, að sögn talsmanna Desertec. Hassan, prins af Jórdaníu er sagður mikill stuðningsmaður verkefnisins. Sum orkuverin verði einnig notuð af neytendum í Afríku.

Fyrirtæki sem taka þátt í Desertec eru meðal annars ABB, Abengoa Solar, Cevital, HSH Nordbank, MAN Solar Millennium, Munich RE, M+W Zander, RWE og Schott Solar. Greint er frá þessu á fréttavef BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert