Peter Mandelson, viðskiptaráðherra bresku stjórnarinnar, segir að Bretar muni setja lög svipuðum þeim og Frakkar hafa gert í þeim tilgangi að vinna gegn ólöglegu niðurhali og sjóræningjastarfsemi á netinu.
Frönsku lögin hafa mætt harðri gagnrýni talsmönnum upplýsinga- og athafnafrelsis á netinu. Samkvæmt þeim verður tölva gerð upptæk við þriðja brot og heimilið sem hún tilheyrði rofið úr sambandi við netið í eitt ár.
Mandelson segir að fyrirhuguð lagasetning í Bretlandi byggi á sömu aðferðafræði. Við fyrsta brot fyrir niðurhal yrði viðkomandi send aðvörun í tölvupósti. Í stað þess að fá ábyrgðarbréf í pósti við annað brot eins og handan Ermarsundsins yrði bandvídd hins brotlega Breta þrengd.
Og við þriðja brot yrði netsamband við heimilið rofið.
Í Frakklandi hefur sérstakri netlöggustofnun verið komið á fót til að taka á sjóræningjastarfseminni. Mandelson segir það ekki verða gert í Bretlandi, heldur verði fjarskiptaeftirlitinu falið eftirlitið.