Nokia innkallar milljónir hleðslutækja

Höfuðstöðvar Nokia í Espoo í Finnlandi.
Höfuðstöðvar Nokia í Espoo í Finnlandi.

Nokia, stærsti farsímaframleiðandi heims, hefur innkallað um 14 milljónir hleðslutækja á heimsvísu vegna framleiðslugalla. Nokia segir að hleðslutækin geti valdið raflosti og að farsímaeigendur geti skipt þeim út fyrir ný, þeim að kostnaðarlausu.

Fram kemur í yfirlýsingu frá fyrirtækinu að ekki sé vitað til þess að nokkur hafi skaðast vegna þessa. Innköllunin nær ekki til Kína, Bretlands, Brasilíu, Argentínu og nokkurra annarra landa, að sögn talsmanns Nokia.

Gölluðu hleðslutækin eru með skráningarnúmerin AC-3E og AC-3U, sem voru framleidd á milli 15. júní og 9. ágúst 2009. Einnig er um að ræða tæki merkt AC-4U, sem var framleitt á milli 13. apríl og 25. október sl.

AC-3E hleðslutækið var selt í Evrópu, en hin tvö voru seld í Norður- og Suður-Ameríku. Þau voru framleidd af undirverktakafyrirtækinu BYD.

Nokia segir að notendur geti fari á vefsíðu fyrirtækisins til að kanna hvort þeir séu mögulega með gallað hleðslutæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert