Ummæli sem yfirmaður hjá tölvurisanum Microsoft lét hafa eftir sér í viðtali við tölvutímarit hefur farið fyrir brjóstið á mörgum samstarfsmönnum hans. „Það sem við höfum reynt að gera með Windows 7 [...] er að reyna skapa Makka útlit og viðmót, hvað grafíkina snertir“ sagði Simon Aldous við breska tímaritið PCR.
Forsvarsmenn Microsoft hafa svarað þessu og segja að Aldous hafi ekki tekið þátt í þróun Windows 7. Brandon LeBlanc, hjá Microsoft, skrifaði jafnframt á bloggsíðu sína að ummælin væru ónákvæm og að þau byggist á vanþekkingu.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að því hafi oft verið haldið fram að Microsoft hafi fengið tæknihugmyndir að láni, eða allt frá því Windows- og Mac-stýrikerfin urðu til.
Menn deila t.d. enn um það hver átti hugmyndina að „gluggum“ á „skjáborði“ í Windows 1.0. Árið 1988 var t.d. höfðað dómsmál vegna þessa.
Það þykir hins vegar vera augljóst að grafíkbreytingarnar í Windows 7 eigi sér hliðstæðu í Mac Os X. Hvorki Microsoft né Apple hafa hins vegar tjáð sig um málið.