Á Norðurlöndum er geislun á almenning frá farsímasendum, sjónvarps- og útvarpssendum og vegna þráðlauss búnaðar vel undir ráðlögðum alþjóðlegum mörkum. Geislavarnastofnanirnar á Norðurlöndum hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem segir að ekki sé að svo stöddu þörf á að beita sér sameiginlega til að draga frekar úr geislun frá sendunum.
Fram kemur á vef Geislaverndar ríkisins að Geislavarnastofnanir Finnlands, Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur og Íslands hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu varðandi geislun á almenning frá fjarskiptamöstrum á almannafæri. Niðurstaða þeirra er að ekki hafi verið færð fyrir því gild vísindaleg rök að þessi geislun, eins og hún er nú í venjulegu umhverfi fólks, hafi skaðleg heilsufarsleg áhrif.
Geislun frá fjarskiptasendum er nú hvarvetna í umhverfi okkar. Dæmigerður styrkur hennar er örlítill, langt undir einu prósenti af viðmiðunargildum Alþjóðageislavarnaráðsins fyrir ójónandi geislun (ICNIRP).
Engu að síður ber að hafa í huga að í mörgum tilvikum hefur tæknibúnaður sem sendir frá sér þessa geislun verið notaður skemur en tvo áratugi. Þess vegna er nauðsynlegt að halda áfram rannsóknum á hugsanlegum heilsufarsáhrifum geislunar frá fjarskiptasendum og stöðugt endurmat þarf að fara fram á vísindaniðurstöðum á þessu sviði. Einnig er nauðsynlegt að fylgjast með þróun í notkun þessarar geislunar og hugsanlegum heilsufarsáhrifum sem gætu fylgt henni.
Norrænu geislavarnastofnanirnar ítreka að til þess að draga úr heildargeislun á almenning frá fjarskiptabúnaði, þarf í skipulagi bæði að taka mið af geislun frá sendimöstrum og handtækjum, t.d. farsímum. Farsímarnir valda mun meiri geislun á almenning en möstrin. Yrði farsímamöstrum fækkað þyrftu símarnir að senda út af auknu afli til að viðhalda tengingu, með hugsanlegri aukningu geislunar á notendur þeirra í kjölfarið.