Talið er mögulegt að stærsti öreindahraðall heims (Large Hadron Collider) verði endurræstur um næstu helgi, en hann hefur verið í viðgerð í um eitt ár. Embættismenn hafa þó ekki viljað gefa upp nákvæma tímasetningu hvenær öreindum verði skotið inn um 27 km löng göng sem liggja að hraðlinum.
Öreindahraðallinn í CERN, Evrópsku rannsóknamiðstöðinni í öreindafræði í Genf, var ræstur í fyrsta sinn í fyrra, en það varð hins vegar að slökkva á honum vegna rafmagnsbilunar. Hún olli því að um eitt tonn af helíumi lak inn í göng undir stofnuninni. Þetta kemur fram á vef BBC.
Hraðallinn er um 100 metra neðanjarðar við landamæri Sviss og Frakklands.
Hraðallinn er í raun samstæða margra hraðla sem þeyta öreindum í afar sterku segulsviði í sérstökum göngum þar til þær nálgast ljóshraða, hinn endanlega hraða efnisheimsins, sem mælist rétt tæplega 300.000 km á sekúndu.
Tilgangurinn er að skapa þau skilyrði sem talið er hafi verið við Miklahvell fyrir 13,7
milljörðum ára. Menn gera sér vonir um að öðlast dýpri skilning á
myndun alheimsins í árdaga, með gleggri sýn á innsta eðli
efnisheimsins.