Evrópusambandið hefur látið loka eða breyta yfir tvö hundruð vefsvæðum eftir viðamiklar aðgerðir neytendastofu sambandsins á svindli tengdu hringitónum farsíma. Rannsakaðar voru yfir 300 vefsíður í öllum ríkum Evrópusambandsins auk Íslands og Noregs. Níu ítölsk fyrirtæki, þar á meðal Vodafone á Ítalíu og Teleco Italia, voru í kjölfarið sektuð samanlagt um tvær milljónir evra fyrir brot á lögum.
Neytendastofa ESB hóf rannsóknina í júní í fyrra eftir að kvartanir bárust frá foreldrum og neytendum um að lögbrot ættu sér stað hvað varðar kaup á hringitónum í farsíma. Hringitónamarkaðurinn er metinn á 691 milljón evra á ári.
Meira en helmingur þeirra vefsíðna sem rannsakaðar voru buðu upp á hringitóna úr teiknimyndum eða sjónvarpspersóna sem hægt var að kaupa áskrift að. Hins vegar var oft ekki nægjanlega skilmerkilega greint frá því að niðurhalið væri ekki ókeypis og að kostnaður við það myndi koma fram á símareikningum viðkomandi.
Meglena Kuneva, sem fer með neytendamál framkvæmdastjórnarinnar, segir að ungmenni eigi ekki að þurfa að vera fórnarlömb slíkrar svikamyllu þar sem misvísandi auglýsingar fá þau til að gerast áskrifendur að hringitónum sem þau héldu að væru ókeypis. Hvetur hún foreldra til þess að fylgjast betur með því hvað börn þeirra séu að hlaða niður af vefnum. Háir símreikningar vegna slíks niðurhals eiga ekki að koma foreldrum óþægilega óvart í þeim tilvikum þar sem börn hafa skráð sig fyrir meiru en þau hafa hugmynd um, segir Kuneva í fréttatilkynningu í dag.
Alls var 54 vefsíðum lokað og yfir 150 var gert að breyta auglýsingum á síðunni þar sem ekki þótti nægjanlega skilmerkilega greint frá því að aukakostnaður fylgdi niðurhalinu á hringitónum.