Áfengi gott fyrir hjartað?

Niðurstöður nýrrar spænskrar rannsóknar virðast benda til þess, að sé áfengis neytt daglega dragi það úr líkum á hjartasjúkdómum hjá karlmönnum um þriðjung. Áhrifin voru ekki eins jákvæð á konur samkvæmt rannsókninni.

Sagt er frá rannsókninni á fréttavef BBC í dag en samtals var fylgst með 15.500 karlmönnum og 26 þúsund konum. Rannsóknin benti til þess að eftir því sem áfengisneyslan jókst þeim mun betri áhrif hefði það á hjarta karlmanna.

BBC segir, að sérfræðingar séu fullir efasemda um þessar niðurstöður og benda á, að áfengisneysla hafi ýmis skaðleg áhrif í för með sér og valdi sjúkdómum. Eru 1,8 milljónir dauðsfalla í heiminum á ári raktar beint til neyslu áfengis. 

Á Spáni er neysla áfengis tiltölulega mikil en tíðni hjartasjúkdóma er að sama skapi  frekar lítil. Í rannsókninni voru karlmenn og konur á aldrinum 29-69 beðin um að halda skrá yfir áfengisneyslu sína og síðan var fylgst með þeim í 10 ár. 

Vísindamennirnir skiptu fólkinu í sex hópa, allt frá þeim sem drukku aldrei til þeirra sem drukku yfir 90 grömm af alkóhóli á dag, það er rúma flösku af léttvíni eða 4 bjóra.

Niðurstaðan var sú, að ef karlmenn drukku lítið en daglega, t.d. eitt glas af vodka, minnkuðu líkur á hjartasjúkdómum um 35%. Hjá þeim sem drukku mest minnkuðu líkurnar um 50%. 

Áhrifin voru ekki eins mikil á konur en hjartasjúkdómar í konum eru almennt ekki eins tíðir og í karlmönnum. Ekki virtist skipta máli hvaða áfengistegundir voru drukknar en þó virtist betra að hafa fjölbreytni í neyslunni.   

BBC hefur eftir breskum sérfræðingum, að taka eigi þessum niðurstöðum með varúð vegna þess að þær taki ekki mið af því að óhófleg áfengisneysla veldur mörgum öðrum sjúkdómum, þar á meðal hjartasjúkdómum og einnig sjúkdómum í lifur, brisi og heila. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert