„Viagra fyrir konur“ væntanlegt

Viagra er stinningarlyf fyrir karlmen. Flibanserin mun þjóna svipuðum tilgangi …
Viagra er stinningarlyf fyrir karlmen. Flibanserin mun þjóna svipuðum tilgangi fyrir konur, þ.e. að auka kynhvöt þeirra.

Þýska lyfjafyrirtækið Böhringer Ingelheim undirbýr nú markaðssetningu nýs lyfs, Flibanserin, sem er að kalla má nýtt Viagra fyrir konur. Lyfið var fyrst prófað sem þunglyndislyf en eftir að konur sem tóku þátt í rannsóknum greindu frá aukinni kynorku við notkun lyfsins var farið í að þróa það áfram sem lostalyf.

Viagra varð einnig til eftir að hafa verið þróað í öðrum tilgangi upphaflega, þ.e. sem lyf gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Að öðru leyti eiga lyfin lítið sameiginlegt. Greint er frá þessu á þýsku fréttaveitunni Deutsche Welle.

Flibanserin er ætlað að hjálpa konum á barneignaraldri sem stríða við skort á kynhvöt. Í rannsóknum sem gerðar voru í Kanada, Evrópu og Bandaríkjunum var tvöþúsund konum gefið lyfið, eða lyfleysu, í hálft ár. Konur sem tóku 100 milligrömm af lyfinu á dag fundu hjá sér „talsverða aukningu" í fjöldanum á „fullnægjandi ástarfundum" sem þær upplifðu og kynhvöt sinni.

Talið er líklegt að fyrirtækið, sem er næststærsti lyfjaframleiðandi Þýskalands, geti markaðssett Flibanserin innan þriggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert