Fjölskrúðugt líf við hafsbotn

Appelsínugulur fiskur, sem er nefndur neocyema, er meðal þeirra tegunda …
Appelsínugulur fiskur, sem er nefndur neocyema, er meðal þeirra tegunda sem lifa djúpt í Atlantshafi. Reuters

Vísindamenn kynntu um helgina niðurstöður nærri áratugalangrar rannsóknar á lífi í undirdjúpunum. Niðurstaðan er sú, að 17 þúsund fiska- og sjávardýrategundir að minnsta kosti er að finna á 200 til 5000 metra dýpi þar sem sólarljóss nýtur ekki.  

Alls taka vísindamenn frá 80  löndum þátt í rannsókninni en endanlegar niðurstöður eiga að liggja fyrir í lok næsta árs. Meðal annars hefur hafsvæðið frá Asoreyjum til Íslands verið rannsakað. Við rannsóknirnar hafa verið notaðar myndavélar, hljóðsjár og annar tæknibúnaður. Alls hafa verið skráðar 17.650 sjávardýrategundir sem hafast við undir 200 metra dýpi. Þar af eru 5722 tegundir, sem lifa á yfir 1000 metra dýpi. 

Meðal einkennilegustu sjávardýranna, sem vísindamennirnir fundu, er appelsínugult dýr, sem nefnt hefur verið neocyema en það hefst við á 2000-2500 metra dýpi. Vísindamenn fundu eitt slíkt dýr á  Mið-Atlantshafshryggnum. 

Vísindamennirnir segja, að sjávardýr, sem hafast við á miklu dýpi, lifi á næringarsnauðri fæðu, aðallega úrgangi frá sjávardýrum sem falla á hafsbotninn. Nokkur dýranna lifa einnig á bakteríum, sem brjóta niður olíu, brennistein og metan, en önnur lifa á hvalhræjum. 

Í hafsvæðinu við Mið-Atlantshafshrygginn fannst meðal annars rækjutegund, sem aldrei hafði áður sést. 

Census of Marine Life

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert