Bolli af brasilísku tei með mintubragði getur virkað jafnvel og sum verkjalyf sem seld eru í apótekum, að minnsta kosti þegar mýs eru annars vegar. Rannsókn sem gerð var við háskólann í Newcastle og birt er í tímaritinu Acta Horticulturae, sýnir fram á þetta.
Teið er gert úr jurt sem á latínu nefnist hyptis crenata og hefur lengi verið hálfgert töframeðal í brasilískum náttúrulækningum. Hún er notuð til þess að vinna gegn höfuðverk, magaverk, hita og flensu.
Til þess að herma eftir því hvernig lyfið er venjulega notað í brasilíu var framkvæmd könnun meðal folks þar, til að afla upplýsinga um hvernig lyfið er útbúið og hvað á að nota mikið af því í hvert skipti. Yfirleitt var búið til seyði, eða te, sem var svo drukkið.
Þegar lyfið var gefið í svipuðum skammti og lyfið indómedasín, sem er hefðbundið verkjalyf í ætt við magnýl, reyndust áhrifin vera svipuð. Næsta skref vísindamannanna í Newcastle verður að gera tilraunir á fólki til að athuga hvort áhrifin eru þau sömu eins og á mýs.