Vélmennamót eru ný tegund samkoma sem ryðja sér nú til rúms eftir því sem tækninni fleygir fram. Eitt slíkt er nú haldið í Tókýó í Japan þar sem það nýjasta í vélmennatækni er til sýnis en raunveruleikinn líkist æ meir því sem sást í vísindaskáldsögum fyrir nokkrum árum.
Meðal vélmennanna á mótinu í Japan er Omni Zero 1000, sem getur breytt sér í bíl. Bílaframleiðandinn Toyota sýnir gervihandlegg, sem hægt er að stjórna með auðveldum hætti.
Um 200 fyrirtæki taka þátt í vélmennamótinu, sem hefur verið haldið árlega frá árinu 1973. Japanar eru leiðandi í þróun vélmenna og róbóta hverskonar og eru áætlanir um að slík framleiðsla muni velta jafnvirði 1300 milljarða króna árið 2016.