Taka túnfisk af matseðlinum

Túnfiskur hífður um borð í ítalskan togara í Miðjarðarhafi.
Túnfiskur hífður um borð í ítalskan togara í Miðjarðarhafi. reuters

Margir virtustu matreiðslumeistarar Frakklands hafa heitið því í vikunni að taka túnfisk af matseðli veitingahúsa sinna og aðrar fisktegundir sem taldar eru í hættu. Þeir segja það áhættunnar virði. 

Helmingur fiskmetis sem neytt er í Evrópu er snætt á veitingahúsum. Leiðtogi franskra úrvalskokka, Olivier Roellinger í Cancale á Bretaníuskaga, segir tíma til kominn að kokkar taki afstöðu til fiskveiða.

Roellinger er meðal annáluðustu matreiðslumeistara Frakklands og er þekktur fyrir sjávarfang sem boðið er upp á í veitingahúsi hans. Hann tók  túnfisk af matseðli sínum fyrir fimm árum, en stofnar svonefnds rauðtúnfisks eru sagðir í hættu, ekki síst í Miðjarðarhafi.

„Við verðum að sýna ábyrgð og gott fordæmi , höfin eru í hættu vegna þungrar sóknar,“ segir  Roellinger, sem rekur þriggja stjörnu veitingahús í smábænum Cancale.

Umhverfisverndarsinnar segja túnfisk í hættu vegna ofveiði og vilja að CITES-stofnunin banni viðskipti með hann. Á alþjóðlegum fundi í Brasilíu í síðustu viku varð að samkomulagi að minnka túnfiskkvóta í austanverðu Atlantshafi og Miðjarðarhafi um 40% á næsta ári.

Roellinger er forseti Relais et Chateaux, samtaka 475 evrópskra, japanskra og bandaríska úrvalskokka, en samtökin segja, að útlit sé fyrir að fiskmeti sem nú er neytt verði uppurið í höfunum árið 2050. Bera þau fyrir sig mati vísindamanna.

Að sögn Roellinger hafa 60% félagsmanna samþykkt að hætta að bjóða upp á túnfisk á veitingahúsum sínum en þau er að finna í samtals 57 löndum. Hann sagði nöfn þeirra kokka og veitingahúsa sem ekki fara að tilmælum samtakanna yrðu birt opinberlega.

Meðal frægra matsveina sem tekið hafa túnfisk af matseðli sínum, jafnvel fyrir nokkrum árum, eru Joel Robuchon og Alain Ducasse. Einnig Gael Orieux hjá hinum þekkta sjávarréttarstað í París, Auguste.


Gert að afla ítalsks túnfiskskips á Miðjarðarhafi.
Gert að afla ítalsks túnfiskskips á Miðjarðarhafi. reuters
Túnfisk landað úr ítölsku túnfisksskipi.
Túnfisk landað úr ítölsku túnfisksskipi. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert