Forsvarsmenn Microsoft hafa staðfest að verið sé að rannsaka vandamál sem hefur komið upp í nýjasta stýrikerfi fyrirtækisins. Um villuboð er að ræða sem hefur verið kallað „svartur skjár dauðans“. Vandinn lýsir sér þannig að þegar notendur Windows 7 skrá sig inn þá sjá þeir aðeins kolsvartan skjá.
Microsoft er nú að athuga hvort vandamálið tengist nýjustu öryggisviðbótinni sem fyrirtækið sendi frá sér 25. nóvember.
Frést hefur að vandamálið hafi einnig haft áhrif á notendur Vista, XP auk annarra stýrikerfa, að því er breska ríkisútvarpið greinir frá.
Þar segir að hugbúnaðarfyrirtækið Prevx telji að milljónir tölvunotenda hafi eða muni verða fyrir barðinu á þessu. Prevx hefur sent frá sér viðbót til að laga gallann.
David Kennerley, hjá Prevx, skrifar á bloggsíðu sína að margir Windows notendur hafi brugðið á það ráð að setja upp stýrikerfið á nýjan leik til að laga vandann. „Við vonumst til þess að við getum hjálpað mörgum ykkar til að komast hjá því að endurræsa kerfið.“