Kemur erfðaefni karla í veg fyrir langlífi?

mbl.is

Genið sem stuðlar að því að karldýr verði almennt stærri og kraftmeiri en kvendýr gæti einnig valdið því einnig að þeir verða ekki eins langlífir og þær. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Þar er greint frá nýrri rannsókn sem gerð hefur verið á músum, sem leiðir í ljós að bæði kynin bera umrætt gen, en það virðist hins vegar aðeins verða virkt hjá  karlkyns dýrunum. Rannsóknin var gerð við Landbúnaðarháskólann í Tókýó og eru niðurstöðurnar birtar í tímaritinu Æxlun manna.

Þó rannsóknin hafi aðeins verið gerð á músum telja vísindamennirnir, sem að henni standa, að niðurstaða rannsóknarinnar geti einnig átt við um önnur spendýr, þeirra á meðal manninn.

Vísindamennirnir skoðuðu gaumgæfilega mýs sem skapaðar höfðu verið með erfðaefni frá tveimur kynkyns músum en engum karlkyns. Þetta var hægt með því að eiga þannig við kjarnsýruna (DNA) í músareggi að hún fór að hegða sér líkt og sæðisfruma. Efninu var því næst sprautað inn í annað músaregg fullorðinnar kvenkyns músar til þess að skapa fóstur.

Afsprengi þessara blöndu voru laus við öll þau gen sem erfast frá karldýrum og lifðu að meðaltali þriðjungi lengur en mýs með venjulega genasamsetningu.

Mýsnar sem skapaðar voru úr genum tveggja kvenmúsa voru ívið léttari og minni við fæðingu. Hins vegar var ónæmiskerfi þessar músa sterkara en ella.

Vísindamenn telja að gen sem nefnt er Rasgrf1 og erfist frá föður til afkvæmis sé genið sem hindri langlífi.

„Við höfum lengi vitað að konur lifðu almennt lengur en karlmenn, nánast hvar sem er í heiminum. En nú höfum við fengið staðfest að kynið hefur afgerandi áhrif á langlífi hjá öðrum spendýrum líka,“ segir Tomohiro Kono prófessor sem stjórnaði rannsókninni.

„Menn vissu hins vegar ekki af hverju þessi munur stafaði og eins var óvitað hvort langlífi spendýra erfist frá aðeins öðru hvoru eða báðum foreldrum. Rannsóknin gæti veitt okkur slík svör og útskýrt hvers vegna konur almennt virðast lifa lengur en karlar.“

Vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni benda á að karldýr hafi tilhneigingu til þess að leggja áherslu á að styrkja sig líkamlega þar sem styrkur og stærð auðveldi þeim að finna góðan maka. Á sama tíma sé tilhneiging meðal kvendýra til þess að spara orkuna fyrir æxlun og uppeldi ungviða sinna.

Kay-Tee Khaw, prófessor og sérfræðingur í öldrun við Háskólann í Cambridge, segir ekki sjálfgefið að hægt sé að yfirfæra rannsóknarniðurstöður sem við eiga um mýs yfir á manneskjur.

„Þetta er áhugaverðar niðurstöður, en ég tel að ástæður þess að konur og karlar lifa mislengi séu miklu mun flóknari en svo að hægt sé að útskýra það með einu geni,“ segir Khaw og bendir á að mismunandi ævilengd kynjanna hafi þróast á löngum tíma og taki m.a. mið af aðstæðum.


mbl.is/G. Rúnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert