Styttist í loftslagsráðstefnu

Stærsta loftslagsráðstefna sem hefur verið haldin í heiminum hefst í Kaupmannahöfn á morgun, en þar verða fulltrúar 193 ríkja viðstaddir. Hátt settir embættismenn Sameinuðu þjóðanna hvetja þjóðir heims til þess að berjast gegn hlýnun jarðar.

Þrátt fyrir að Mongólía sé eitt umhverfisvænsta land heims, þá reyna yfirvöld þar í landi að leggja meira af mörkum í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda. Sumir mongólskir hirðingjar hafa t.d. sett upp sólarrafhlöður á þak færanlegra híbýla sinna.

Yvo de Boer, framkvæmdastjóri Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, segir nauðsynlegt að fulltrúar ríkjanna nái saman um mikilvæg skref í baráttunni við loftlagsbreytingar.

De Boer segir að vísindasamfélagið segi að heimurinn hafi aðeins fimm til tíu ár til að gera róttækar breytingar í loftlagsmálum. „Við verðum að bregðast við núna.“

Margir binda vonir við að á ráðstefnunni náist samkomulag um framhald á Kyoto-bókuninni við Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Í ljósi þess hve illa hefur gengið að ná samkomulagi um framhald Kyoto-bókunarinnar eru ekki miklar líkur á að samkomulag sem hald er í náist í Kaupmannahöfn. Og raunar er það svo að ekki hefur verið sérstakt hald í Kyoto-bókuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert