Ný rannsókn bendir til þess að einmanaleiki auki líkurnar á krabbameini. Þeir, sem eru einmana, eru einnig líklegri til að fá banvænni æxli, ef marka má rannsóknina.
Skýrt er frá rannsókninni í vísindatímaritinu Proceeding af the National Academy of Science. Hún leiddi í ljós að rottur, sem voru einar, fengu fleiri æxli og hættulegri en rottur sem voru saman í hópi.
Rannsóknarmennirnir rekja þetta til streitu og telja að það sama kunni að eiga við um menn. Sérfræðingar segja þó að frekari rannsókna sé þörf til að sanna slík tengsl milli einmanaleika og krabbameins í mönnum.
Læknar vita nú þegar að krabbameinssjúklingum, sem eiga við þunglyndi að stríða, vegnar ver en öðrum í baráttunni við krabbameinið. Áður höfðu rannsóknir bent til þess að félagslegur stuðningur auki líkurnar á bata sjúklinga með brjóstakrabbamein, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins.